Kirkja hinnar heilögu róðu

Róða merkir í fornu máli ensku og íslensku kross með áföstu líkneski Krists, eða með öðrum orðum krossfestingarlíkneski, róðukross. Orðið róða kemur fyrir í bæjarnafninu Róðugrund í Skagafirði á Íslandi og nafni konungshallarinnar Holyrood í Edínborg en þar stóð klaustur hinnar heilögu róðu áður en það var tekið undir konung.

Fyrsta kirkja á þessum stað var reist af Davíð I. árið 1129 en hún brann árið 1406. Skömmu síðar lagði the Lord Chamberlain Skotlands fé til nýrrar kirkju og voru framkirkja, turn, suðurhluti og kirkjuskip fullbúnir árið 1414. Þetta er sá hluti kirkjunnar þar sem sívalar skoskar súlur og gotneskir bogar halda uppi eikarþaki sem enn er vel sýnilegt þrátt fyrir margar breytingar og lítur út svipað því sem það var nýbyggt.

Kirkjan reyndist samt ekki nógu stór fyrir söfnuðinn svo reistur var kór eða austurhluti kirkjunnar á árunum 1507-1546. Unnu að því verki iðnaðarmenn staðarins undir virkri foystu John Coutts Múrarameistara.

Árið 1656 risu deilur milli tveggja presta kirkjunnar og fylgismanna þeirra. Lét borgarstjórnin þá reisa skilrúm sem myndaði tvö rými í kirkjunni, austur og vesturkirkju þar sem nú er krosskirkjan. Fékk hvor prestur sinn kirkjuhelming til afnota og stóð sú skipan til ársins 1935 er söfnuðirnir voru sameinaðir á ný og sóknarprestur varð einn.

Árin 1936 til 1940 fóru fram gagngerðar endurbætur á kirkjunni. Veggur sá sem skipti kirkjunni í tvennt var fjarlægður sem fyrr segir og tvö hliðarskipin voru lengd og nýtt þak sett yfir krosskipið. Gólf í kór voru hækkuð en skrúðhúsi og fundarherbergi sóknarinnar var komið fyrir undir kórnum.

Frá 1965 og 1968 fóru fram frekari endurbætur á kirkjunni. Endurnýjuð var steinhleðsla og steinskraut nokkurra glugga, skipt var um steina sem eyðst höfðu og hitakerfið var endurnýjað.

Árið 1970 var rambalti sex klukkna í klukkuturni endugerður og upphenging endurnýjuð. Er nú unnt að hringja klukkunum bæði handvirkt og vélvirkt. Frá árinu 1987 til 1993 var gert við kirkjunna fyrir alls 1.250.000 sterlingspund.

María Stúart Skotadrottning sótti kirkju hér og hér flutti John Knox prédíkanir. Jakob VI Skotakonungur, sonur María var krýndur í kirkjunni 29. júlí 1567, þá barn að aldri, og er hún eina krýningarkirkja á Stóra-Bretlandi fyrir utan Westminster Abbey sem er notuð til reglulegs guðsþjónustuhalds. Jakob VI. tók við ríki af Elísabetu I. árið 1603 og tók sér konungsnafnið Jakob I. á Englandi, og sameinaði koningsríkin England og Skotland. Sú skipan gildir enn í dag eins og sést af heitinu United Kingdom.